154. löggjafarþing — 79. fundur,  4. mars 2024.

útlendingar.

722. mál
[20:37]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið og ég get verið sammála, mér finnst að við eigum að taka vel á móti fólki frá Úkraínu, eins og mikil sátt hefur verið um í íslensku samfélagi. Og alveg eins og ég held að hafi komið skýrt fram í umræðunni er þessu frumvarpi ekki ætlað að ganga með einum eða öðrum hætti á réttindi þess fólks. En já, hv. þingmaður telur okkur vera hér að fara dönsku leiðina sem er oft kennd við sósíaldemókratana, systurflokk hv. þingmanns, í Danmörku. Ég get reyndar ekki séð það út úr þessu frumvarpi, ég verð að viðurkenna það. Ég hef reyndar viljað horfa á, sérstaklega þegar kemur að inngildingunni, norsku leiðina og við höfum rætt þetta mikið í allsherjar- og menntamálanefnd eftir að við fórum í heimsókn til bæði Danmerkur og Noregs og okkur hugnaðist það vel. En það er alveg skýrt að fólk sem kemur hingað eftir að hafa fengið vernd í öðru ríki er ekki samkvæmt skilgreiningu, hvorki skilgreiningu flóttamannasamningsins né íslenskum lögum né öðrum Evrópulögum, fólk á flótta og fólk á þörf fyrir vernd. Það er í rauninni lykilatriðið í þessu frumvarpi að mínu viti, að við séum ekki með séríslenska reglu hvað það varðar. Þetta kom alveg skýrt fram í máli þeirra á hinum Norðurlöndunum þegar við vorum að ræða þetta við þau í allsherjar- og menntamálanefnd. Þau skildu ekki alveg af hverju við vorum með svona mikinn fjölda því að þau héldu jafnvel ekki utan um það. En það er líka alveg rétt og það er alveg skýrt í okkar lögum og samkvæmt mannréttindasáttmálanum að við sendum fólk ekki í hættu. Við sendum ekki fólk þangað sem það á í hættu á að vera ofsótt eða annað þess háttar, þannig að það ákvæði grípur auðvitað í slíkum tilfellum.

Aðalatriðið er hérna að við séum að horfa á það að regluverkið okkar sé með einhverjum hætti sambærilegt við það sem þekkist á hinum Norðurlöndunum. Og auðvitað er það alveg rétt hjá hv. þingmanni, eins og margoft hefur komið fram, að langflestir eru að koma frá Úkraínu og svo hefur það verið Vensúela, vegna þess að við vorum einmitt með sérmeðhöndlun á fólki frá Venesúela. (Forseti hringir.) Þó var sú ákvörðun ekki tekin á þingi og ég veit ekki til þess að neinn ráðherra hafi tekið þá ákvörðun (Forseti hringir.) sem slíka heldur miðaðist það við aðstæður í Venesúela á sínum tíma. Við sjáum núna þegar hefur verið að spilast (Forseti hringir.) úr þeirri niðurstöðu hjá úrskurðarnefndinni að það er strax árangur; (Forseti hringir.) þeim fer fækkandi sem sækja hingað frá Venesúela.

(Forseti (AIJ): Forseti minnir á afar takamarkaðan ræðutíma.)